Tónleikar Poul Simon

Ég heyrði fréttir af því fyrir nokkru síðan að jafnvel stæði til að slá tónleika Poul Simon af ?   Ég var í Höllinni í gær ásamt konu minni og gat ég ekki betur séð annað en Laugardalshöllin væri smekkfull.  Frúin hafði keypt miða fljótlega eftir að miðasala hófst þannig að við fengum að sitja.  Ég er búin að lofa sjálfum mér að fara ekki á tónleika þar sem maður þarf að standa upp á endann í gegnum heila tónleika.  En þarna vorum við mætt full eftirvæntingar og urðum svo sannarlega  ekki fyrir vonbrigðum því þetta voru virkilega góðir tónleikar þar sem karlinn fór í gegnum feril sinn og gerði það með elegönsum.    Þarna var með honum átta manna band og þar fóru sko ekki neinir meðaljónar.  Toppmaður í hverju sæti og var hrein unun að fylgjast með þessum mönnum spila. 

Hann spilaði mest af sólóplötum sínum og einna mest af „Graseland“ enda var hann þarna með allavega tvo afró gæja.  En svo hljómuðu þarna lög sem ég þekkti ekki og eru þau væntanlega af nýjustu plötunni „Suprise“ sem ég verð að viðurkenna að hafa ekki eignast enn.  Það verður að teljast mér til málsbóta að síðustu plötur kappans allt frá „Capeman“  hafa að mínum dómi alls ekki staðist mínar væntingar til þessa snillings sem óumdeilanlega verður að teljast til betri lagasmiða þessarar aldar.   Það tók mig allavega tvö ár að viðurkenna að mér finnist Poul Simon plata ekki skemmtileg !

En eftir þessa tónleika fyrirgef ég honum allt og hrópa ferfallt Húrra.


Keltar, Súber, ísbirnir og ökuníðingar

Keltar 

Ég lofaði að greina frekar frá saumaklúbbnum (hljómsveitinni) Keltar.  Við erum reyndar orðnir eins árs gamlir og reynum alltaf að hittast einu sinni í viku og æfum og eigum góðar stundir.  Við erum svo lánsamir að hafa upptökustúdíó í æfingaplássinu og verjum því miklum tíma í upptökur og erum við komnir vel á veg með þrjú lög.  "Förukona"   "Símtal frá Þórshöfn" og "Gömlu góðu dagarnir"  og ákveðið hefur verið að verja sumrinu meira og minna í upptökur.   Vignir er nýkomin heim úr mikilli reisu með hele familien þar sem þau þvældust um meðal andfætlinga okkar í einar sex vikur.  Hilmar flaug út í heim í gær og við hinir ætlum að hittast í kvöld og fremja raddæfingar.

Um daginn var ég á leið eftir Reykjanesbrautinni (á löglegum hraða) snemma dags og var að hlusta á þríeykið sem ræður ríkjum í Súber morgunþættinum á FM 957  en stelpan hún Sigga er þar á meðal. Daginn áður hafði ungur ökuþjarkur tekin af lögreglunni á Selfossi á 175 km hraða, undir áhrifum, hafði áður misst ökuleyfið vegna samskonar afbrots.   Hlustendur voru að tjá sig um hvaða refsing væri hæfileg fyrir svona hegðan ?    Fyrir skömmu gekk ísbjörn á land og var hann talin skapa hættu og hvað gerði lögreglan í því ?   Jú hún mætti með alvæpni og fretaði bangsa niður.  Þá laust þessari hugsun niður.  Hvað á að gera við menn sem leggja líf samborgara sinna í mikla hættu ?    Ég bara spyr eins og fávís kona.


Löggæslumyndavélar = fjáröflun löregluembættis Snæfellsnes

P6100366

Við hjónin segjum farir okkar ekki sléttar þegar lögregluembættið á Sæfellsnesi er annarsvegar ?   Við búum í Sandgerði eins og þið kannski vitið og fyrir nokkru voru settar upp löggæslumyndavélar á Sandgerðisveginn og er það í sjálfu sér hið besta mál því alltaf eru til „idjótar“ sem keyra alltof hratt.  Staurarnir standa þarna vikum saman án þess að vera virkir og svo fyrirvaralaust byrjar að rigna yfir okkur sektarmiðum upp á 7500 kr  hvert stykki.  Við verðum að punga út tugum þúsunda, eins og kostnaðurinn við akstur í bæinn sé nú ekki nægur ?   En þetta eru bara lögin segir kannski einhver ?  Jú það er alveg rétt.  Svo má deila um réttmæti hraðatakmarkana.   Það er löngu viðurkennd staðreynd að hraði umferðarinnar hér á nesinu er vel yfir hundraðinu.  Mér finnst líka skjóta skökku við að lögreglan lætur afar sjaldan sjá sig á Reykjanesbrautinni á morgnana þegar menn keyra hiklaust á 120 km hraða.  En svo eiga þeir til með að sitja fyrir manni á nóttinni þegar afskaplega fáir eru á ferð.  Við keyrðum mest á 104 km hraða framhjá myndavélunum af þessum sex sektarmiðum.

Hefði ekki verið allt í lagi að gefa okkur einhverja aðlögun og lögreglan einbeitti sér að alvöru ökuþrjótum.  Mér finnst þetta siðlaust athæfi af hendi manna er eiga að gæta laganna að þeir misnoti lögin til að draga fé í budduna.

 


Goslokahátíð og ekki Logar

c_users_gribo_pictures_olympus_master_2_2008_05_28_p5280271.jpg

Vegna fjölda spurninga sem hefur rignt yfir okkur Logamenn síðan það varð ljóst að Logar yrðu ekki á goslokahátíðinni  finn ég mig knúinn til að segja nokkur orð um málið.

Goslokahátíðin í Eyjum er orðin fastur líður í lífi eyjamanna og flykkjast þá gjarnan burt flognir eyjamenn  „heim“   Í hugum margra skapa þessi hátíðahöld þá stemmingu sem horfið hefur úr Þjóðhátíðinni á seinni árum eftir að hún hætti að vera hátíð heimamanna og allt batteríið fór að snúast um peninga.    Ég fyrir mína parta hef upplifað  það að vera í Eyjum og finna stemminguna bókstaflega liggja í loftinu og eftirvæntingin samkvæmt því.  þessari  sömu tilfinningu man ég eftir sem ungur maður þegar Þjóðhátíðin var  á næstu grösum.    Svona hátíð er óneitanlega lyftistöng fyrir bæjarfélagið,  fjöldi manns flykkist til eyja og kaupir þá þjónustu sem þar er í boði svo ekki sé talað um þá skemmtan sem allir njóta.

Þess vegna finnst manni skjóta skökku við  að goðsögn á borð við hljómsveitina  Logar skuli ekki  taka þátt í hátíðahöldunum  út af nokkrum aurum ?  Lagið „Minning um mann“  kom einmitt út gosárið 1973 og í hugum flestra eyjamanna eru Logar órjúfanlegur hluti af þessum rósturímum sem gosið óneitanlega  var.  Það hefur lengi loðað við í okkar góða heimabæ að þegar málin snúa að heimatónlistarmönnum þá eiga þeir að gefa sína vinnu.  Ég man þá tíð fyrir allmörgum árum síðan að sjómannadagur var haldin hátíðlegur og hljómsveitin Gautar frá Siglufirði áttu á spila því okkar tilboð var víst allt of hátt.  En svo gerðist það sem oft gerðist í Eyjum, það varð ófært og Gautar komust ekki.  Sjómannadagsráð átti ekki aðra úrkosta en leita til okkar og að sjálfsögðu björguðum við málinu.  En svo kom að því að gera upp !    Við sögðumst bara taka launin sem Gautar áttu að fá.  Þvílík ósvífni,  ætlið þið að heimta það ? Já við ætlum það.  Við fengum launin sem reyndar voru talsvert hærri en það tilboð sem við gerðum fyrr og við fengum að heyra það að Logar mundu aldrei fá að spila aftur á sjómannadegi og hefur það staðist fram á daginn í dag.   Nú virðist sama sagan aftur uppi á borðinu við erum svo ósvífnir að fara fram á laun fyrir okkar vinnu.  Það er gengið svo langt að ætlast til þess að við berum kostnað af þátttöku okkar.  Þau laun er í boði eru nægja ekki einu sinni fyrir kostnaði.

Svo heyrir maður að Megas við sjötta mann ætli að halda tónleika á hátíðinni og sjálfsagt borgar hann sjálfur miðann sinn í rútuna frá B.S.Í.  , miðann í Herjólf, fyrir bílana, flutning á hljóðfærum, gistinguna hjá Þresti og fyrir hina sex meðlimi hljómsveitarinnar og svo gefa þeir að sjálfsögðu allir vinnuna sína ?

Kannske ætti ég að fá Garðar í Tréverki til að koma og vinna fyrir mig við sólpallinn og segja svo að verki loknu. "Þakka þér kærlega fyrir kæri heimamaður þetta var virkilega rausnarlegt af þér ?

 

 


Líklega elsta starfandi hljómsveit landsins Logar

IMG_4181

Á næsta ári verður hljómsveitin Logar 45 ára sem verður að teljast ansi langur líftími hljómsveitar.  Að sjálfsögðu hafa orðið mannabreytingar á þessum langa tíma en núverandi uppstilling bandsins hefur starfað hvað lengst saman.  Helgi og Henrý eru upprunalegir meðlimir Hermann Ingi, Óli Back, Laugi sem komu seinna inn og Óli  Guðlaugs sem gekk til liðs við bandið fyrir nokkrum árum.  Um síðustu helgi spiluðu Logar á Sjóranum síkáta sem eru sjómannadagshátíðahöld þeirra Grindvíkinga.  Þetta er þriðja árið í röð sem bandið spilar á sjómannadegi í Grindavík og alltaf gerður góður rómur af frammistöðu strákana.     Það verður að teljast til tíðinda ef rock sveit heldur upp á 50 ára afmæli sitt ?   Við verðum bara að bíða og sjá hvað verður ?

 


Tvær kynslóðir og Dylan

P9100085

Yngri sonur minn hann Jónas (Sponsi)  kom karlinum honum pabba sínum svo sannarlega á óvart um daginn.  Fyrir ekki svo löngu síðan kom ég til Jónasar í þeim tilgangi að taka upp.  En áður en lengra er haldið ber að segja frá því að Jónas er mjög svo liðtækur upptökumaður og í raun hæfileikaríkur tónlistarmaður (hann á bara eftir að fatta það sjálfur)   Við tókum upp lagið „It´s all over now baby blue“  sem er eins og flestir ættu að vita eftir Bob Dylan.  Lagið var tekið upp með gítar og söng  bara eitt „take“  svo hugsaði maður ekki mikið meira um það.   Svo nú um daginn sendi strákur mér lagið í nýjum búningi og ég verð að segja það þó ég eigi þarna sjálfur hlut að máli þá er þetta helv... flott.

Þarna mætast tvær  kynslóðir.  Gamli hippinn og nýja teknó kynslóðin.  Lagið er komið á spilarann hér á síðuna og dæmið svo sjálf um.    

Hvetjum svo strákinn til frekari dáða.

 


Saumaklúbbur = Keltar

Fyrir nokkrum dögum síðan skrifaði ég  hér á síðunni  um bölsýni, bölmóð og neikvæðni  og það er svo sannarlega nóg af slíku á ferðinni í dag.  Svo við skulum taka upp léttara hjal og tala um jákvæða og skemmtilega hluti.             Síðastliðið vor var sett á laggirnar hljómsveit eða kannski  væri réttara að segja að stofnaður  hafi verið saumaklúbbur !     Þessi saumaklúbbur sem framan af gegndi nafninu   „Gigtarfélagið“  er ólíkur flestum öðrum saumaklúbbum þar sem allir meðlimir klúbbsins eru karlmenn og í stað þess að prjóna, sauma í eða stunda aðrar kvennalegar hannyrðir er iðkuð tónlist   Eða með öðrum orðum spilað á hljóðfæri og sungið.  Svo eru menn dissaðir í spað.

Framan af var mikið „brainstormað“  um nafn á fyrirbærið.  Mörg nöfn komu upp eins og Gigtarfélagið,  Glerlestin,  Dyss,  Hermar, Hamingjuhersveitin, Hersveit hinna fordæmdu og Brosvöðarnir .   Mörg fleiri nöfn komu til greina en það yrði ansi langur listi svo ég læt það ógert.      Að lokum varð nafnið  Keltar  fyrir valinu sem er vel við hæfi þar sem meðlimir þessarar hljómsveitar hafa allir sterkar rætur í keltneskri tónlist.

Meðlimir Keltana eru  Georg Ólafsson,      Vignir Ólafsson,  Hermann Ingi Hermannsson,  Hlöðver Guðnason og Hilmar Sverrisson.  

Ég mun greina frekar frá þessu merka fyrirbæri á næstu dögum                                                                             


Bölmóður, bölsýni og allt í steik

Það er orðið ansi langt síðan ég reit í þessa síðu.  Ég ætla mér ekki einu sinni að reyna að afsaka það.  En ég sé að síðastra færsla var rétt fyrir áramámótin 2007.   Ég bara verð að láta nokkur orð falla um allan þann bölmóð, bölsýni, neikvæðni og skapadómstal er á okkur hefur dunið síðustu misseri.  Verðbólga, vaxtahækkanir, verðhækkanir á verðhækkanir ofan, fasteignamarkaðurinn hrunin til grunna, bankarnir á vonarvöl, þriðja kynslóð öryrkja, menn í þörf fyrir áfallahjálp og það mætti halda lengi áfram.    Það er svo komið að maður neyðist til að slökkva á fréttum.  Ef maður hlustar á þær er maður laminn niður í hvert skipti.  Allir spjallþættir fjölmiðlana eru undirlagðir af þessum fjanda.  Þegar maður er farinn að skrúfa niður í Gesi Einari í morgunsárið er eitthvað verulega mikið að ?

Ef ég hugsa til baka um nokkur ár til þess tíma er ég og mín kona vorum að sligast undan lífsins böggi og litum sjaldnast glaðan dag.  Dag einn litum við á hvort annað og sögðum "þetta gengur ekki"  við tókum vilja ákvörðun um að vera jákvæð.  Bókstaflega hafna allri neikvæðni. Ekki taka þátt í neikvæðri umræðu, ekki tala illa um náungan.  Bókstaflega aka öllu árum að því að láta sér líða vel.  Og viti menn það leið ekki á löngu áður en lukkuhjólið fór að snúast með okkur en ekki á móti.

Þá verður manni hugsað til þess hvað gerist ef heil þjóð drepst ofan í klofið á sér í depurð og neikvæðni ?


Milli jóla og nýárs, Holtagarðar and so on and so on

 

 PA280531  Út um eldhúsdyrnar að Lækjamótum 17 Sandgerði

.Það verður ekki sagt að sá sem skrifar þessar línur hafi verið dugmikill á bloggritvellinum undanfarið sei sei nei.  En alltaf má betur gera.  En þannig er málum farið að skömmu fyrir jól var ég beðin um að koma að opnun hinnar nýju verslunar Hagkaupa í Holtagörðum það er að segja að sinna nýju bakaríi sem þar er innandyra.  Samvinna Hagkaupa og Myllunnar er hefur varið í 16 ár eða meira, ég árétti það hér að ég er starfsmaður Myllunnar en ekki Hagkaupa.  Það verður að segjast að hin Íslenska leið við opnun búða á sér örugglega enga hliðstæðu í veröldinni og það höfum við svo sannarlega fengið að reyna þessar síðustu vikur.  Svo það er nú nokkuð augljóst að lítill tími hefur verið til að sinna blogginu.  Nú sit ég hér í mínu mini helgarfríi milli jóla og nýárs og pára þessar línur.  Jólin voru bara ágæt það eru þessir þrír fyrstu helgidagar, íslenskt vetrarveður sem við héldum að við værum hætt að fá og verðum alltaf jafn undrandi þegar það mætir. Ég varð að aflýsa jólaboði með börnunum okkar á jóladag og svo spáir brjáluðu veðri á gamlársdag


Vínilklúbburinn og Don Williams

File0102       

Ég lagði leið mína einu sinni sem oftar í Hirðinn Góða og fann þar vínil með Don Williams.  Ég fletti framhjá plötunni en aftur til baka.  Ég vissi ekki mikið um Don Williams annað en hann hafði samið lagið „Act naturally“  sem Bítlarnir gerðu frægt á sínum tíma og Ringó söng svo eftirminnilega. En það að þessi náungi kemur úr sömu röðum og Roger Miller, Johnny Cash, George Jones ásamt fleyri country risum sló ég til og keypti gripinn.   Síðan hefur þessi öndvegisgripur verið á „fóninum“ hjá mér meira og minna.  Platan heitir Visions og er gefin út árið 1977.  „Pródúseruð“  af Don sjálfum og er hann þarna með öndvegis samspilara eins og Lloyd Green á slide gítar og fleiri sem ég kann nú reyndar ekki skil á. Besta lagið „Some broken hearts never mend“  annars er öll platan með þessu rólega og notalega yfirbragði.  Það eru engin átök þarna á ferðinni.  Það er til mikið af góðri country músik, en það er líka til mikið af hrútleiðinlegri country tónlist.  Ég hef alla tíð verið frekar hallur undir þessa tegund tónlistar og þessi 30 ára gamli gripur dregur svo sannarlega ekki úr því.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband