28.10.2008 | 09:01
Þjóðlegheit, kindaskrokkar, Ellí Vilhjálms og krummi
í gær mánudaginn var ég í fríi frá vinnu minni í bakaríinu þar sem ég hafði staðið vaktina alla helgina og að venju fer manni illa að sitja aðgerðarlaus svo fljótlega fór sá gamli að gera skurk í bílskúrnum, því þegar Veturkonungur kemur svona óvænt eins og hann gerði í ár þarf að vera hægt að setja bíllinn inn svo hægt sé að setjast inn í heitan og snjólausan bíl þegar farið er til vinnu eldsnemma að vetrarmorgni. Þegar ég var búin að telja bjórdósir og önnur drykkjarílát í svasrtan plastpoka og ætlaði með út í bíl og opnaði skottið blöstu við mér tveir kindaskrokkar sem nágranni vor hafð sett þar kvöldið áður. Þar með fóru allar skúrtiltektaráætlanir út um þúfur.
Ég setti upp Betty Crocker svuntu og kokkahúfu og bar gripina inn í eldhús og hófst handa við að ganga frá þessum mikla og þjóðlega matarforða. Tveim vikum fyrr hafði kvenleggur konu minnar staðið í slátri hér með miklum bægslagangi og þjóðlegheitum. Síðustu daga hef ég verið að ganga frá vínilplötusafni mínu sem telur á annað þúsund titla og var þess vegna með kassa af Íslenskum vinil inni á gólfi hjá mér. Þannig að ég fór á Íslenskt vinilflipp með kjötskurðinum. Svo kom konan heim upp úr hádeginu og fór strax í svuntu og datt inn í herlegheitin.
Með tilliti til ástandsins í okkar annars ágæta samfélagi fannst mér ég verða að segja frá þessum þjóðlega degi okkar og til að kóróna allt fórum við með beinaúrganginn í Kölku sem er Sorpa okkar Suðurnesjamanna og þar fékk starfsmaður leyfi til að hirða annan beinaúrgangspokann því þeir eru að ala hrafn þarna. Þannig að nýting var alger. Krummi krunkar úti kallar á nafna sinn.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.