18.9.2007 | 09:42
Ian Anderson, Jethro Tull og BSH ?
Föstudagurinn 14 sept rann upp og ég þurfti að mæta til vinnu minnar í Kringlunni og var vægast sagt mikið að gera á þeim bæ. Tilhlökkunin til kvöldsins var samt aldrei langt undan. Við hjónin ákváðum að gista á hóteli svona til að skapa skemmtilega stemmingu í tengslum við þennan atburð sem við höfðum beðið svo lengi eftir. En ekki gekk það eftir vegna þess að ekkert herbergi var laust á hótelum Reykjavíkurborgar. En við fengum inni í Helgu Húsi að Lækjarkinn í Hafnarfirði. Sem föðursystir minnar konu rekur ásamt sínum manni og þar er manni ekki í kot vísað. Vinnudegi lauk og lá þá leiðin í Á T V R að höndla bjór því ekki fer maður alveg þurrbrjósta á svona viðburð. Er ég kom í Helgu Hús var konan mín á leið frá Sandgerði og kom þar skömmu seinna. Þar sem við höfðum fengið okkur öl vildum við ekki keyra svo við hringdum á bíl til að koma okkur á tónleikana í Háskólabíói. Við hringdum í BSH og var sagt að bíllinn kæmi strax. Þetta var hálfátta. Tíminn leið og ekki kom bíllin. Við hringdum í þrígang og var alltaf sagt að bíllinn væri á leiðinni. Þegar klukkan var að verða átta hringdum við í Hreyfil og kom bíllinn að vörmu spori. Vegna þessara ömurlegu þjónustu BSH misstum við af tveimur fyrstu lögunum. Það má líka geta þess að fyrir rest hætti stöðin að svara hringingum okkar og til að kóróna allt vorum við með miða bróður míns Helga og Óla Bach . Það mun líða langur tím þar til ég kaupi þjónustu BSH. En ergelsið yfir þessu var fljótt að hverfa þegar inn var komið. Anderson karlinn er sko ekki aldeilis dauður úr öllum æðum. Sei sei nei. Það verður að segjast alveg eins og er að þetta voru hreint út sagt stórkostlegir tónleikar og hverrar krónu virði. Eins og sagði misstum við af fyrstu tveim lögunum en Sveinn Guðjónsson gerir tónleikunum góð skil í grein sinni í Mogganum í dag 18/9/07 og er ósköp litlu við það að bæta. Ég er að mestu leiti sammála Sveini í gagnrýni hans. Við vorum öll sammála um að betri tónleika hefðum við ekki farið á í langan langan tíma.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.